„Við erum að skoða allar leiðir sem við teljum eiga við í þessu sambandi. Við teljum okkur hafa gögn undir höndum um að menn hafi ekki boðað til aðalfundar með réttum hætti á sínum tíma. Lögum samkvæmt eiga að liggja fyrir gögn um samruna með ákveðnum fyrirvara, sem var ekki,“ segir Gísli Árnason, stofnfjáreigandi Sparisjóðs Skagfirðinga, aðspurður hvort til greina komi að hann muni leita réttar síns fyrir dómstólum.

„Fyrir eigendur lítils stofnfjár er dómstólaleiðin ansi áhættusöm og dýr, auk þess sem hún er seinleg.“

Eins og fjallað var um í gær hyggjast forsvarsmenn stofnfjáreigenda Sparisjóðs Skagafjarðar óska eftir lögreglurannsókn á því hvernig staðið var að yfirtöku Sparisjóðs Siglufjarðar á Sparisjóði Skagafjarðar í fyrra, en við yfirtökuna eignaðist Sparisjóður Mýrarsýslu 88% stofnfjár Sparisjóðs Skagfirðinga, en Sparisjóður Siglfirðinga var í 99,9% eigu Sparisjóðs Mýrarsýslu.

„Auk þess setjum við spurningamerki við lögmæti atkvæðagreiðslu á fundinum þar sem samruninn var ákveðinn, þ.e. varðandi atkvæðagreiðslu tengdra aðila,“ segir Gísli.

Gísli segist ekki hafa fengið svör við ofangreindum álitaefnum frá Fjármálaeftirlitinu.

„Fjármálaeftirlitið segir öllum fyrirspurnum hafa verið svarað, en það er bara ekki rétt,“ segir Gísli.

„Ég tel að Sparisjóði Skagafjarðar hafi vísivitandi verið siglt í það ástand sem kom í ljós að hann var í, til að sameiningin gæti orðið að veruleika. Ég hafði t.d. sjálfur tvisvar sinnum lagt til stofnfjáraukningu áður.“

Fjármálaeftirlitið segir í yfirlýsingu að eftir ítarlega skoðun hafi samruni Sparisjóðs Skagafjarðar og Sparisjóðs Siglufjarðar verið samþykktur í marsbyrjun 2008.

Frá upphafi hafi verið ljóst að einhverjir stofnfjáreigendur í Sparisjóði Skagafjarðar voru ósáttir við samrunann og þeir hafi frá því í mars getað leitað til dómstóla til að fá samrunann ógiltan. Að öðru leyti telur Fjármálaeftirlitið ekki ástæðu til að tjá sig um málið sem sé lokið af þess hálfu.