Kauphallarsjóður nokkur gæti haft talsvert spágildi um sigurlíkur Donald Trump, forsetaefni Repúblíkana, í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum í nóvember.

EWW, kauphallarsjóður iShares sem fylgir Mexíkóvísitölu MSCI og er skráður í Kauphöllinni í New York, virðist í auknum mæli standa í neikvæðu sambandi við fylgi Trump samkvæmt skoðanakönnunum. Þýðir þetta að þegar Trump eykur við fylgi sitt, þá tekur sjóðurinn dýfu, og öfugt.

Stærstu fyrirtækin í EWW eru America Movil (9,89%), Fomento Economico (9,16%), Grupo Financiero (6,90%) og Grupo Televisa (6,59%). Sem dæmi um önnur fyrirtæki má nefna Walmart Mexico, Cemex og Grupo Mexico. Óteljandi þættir hafa áhrif á alla markaði, en eftir því sem nær dregur að forsetakosningunum hefur gengi þessara fyrirtækja og því EWW í auknum mæli sveiflast í takt við fylgi Trump – þó með öfugum hætti.

Frá lok október árið 2014 hefur virði EWW rýrnað um tæp 40%. Frá því í júlí árið 2015 hefur Trump aukið fylgi sitt um tæp 28%. Trump hefur ítrekað lagt áherslu á hertari innflytjendastefnu í kosningabaráttu sinni og hefur hann oftar en ekki beint athyglinni að Mexíkó í því samhengi, en hann hefur í hyggju að byggja múr á landamærum Mexíkó, taka upp eftirlitskerfi og vísa ólöglegum innflytjendum úr landi. Einnig hefur hann lofað því að semja um NAFTA fríverslunarsamninginn. Óhætt er að segja að þessi loforð hafi ekki haft jákvæð áhrif á mexíkóska hagkerfið undanfarin misseri. Aðrir þættir sem útskýra lélegt gengi EWW eru gengisfall pesósins, lítill hagvöxtur og lágt olíuverð

Samkvæmt greiningu S3 Partners LLC hafa stuttir vextir EWW, sem endurspegla stöðutökur um verðfall á sjóðnum,  hækkað um tæp 60% undanfarinn mánuð. Fjárfestar sem vilja veðja á sigur Trump í forsetakosningunum taka þá skortstöðu í sjóðnum, og endurspeglar það að eftir því sem vinsældir Trump aukast, þá aukast líkurnar á neikvæðum skell í mexíkóska hagkerfinu.