Í slenska heilbrigðistæknifyrirtækið SidekickHealth var annað tveggja fyrirtækja sem svissneski lyfjarisinn Roche valdi úr hópi 160 fyrirtækja til að kynna á Roche Innovation ráðstefnu fyrirtækisins í júní. Þar koma saman 800 stjórnendur fyrirtækisins og leggja línur um nýsköpun fyrir árið og kynna sér um leið áhugaverðustu nýsköpunina á markaðnum.

Tryggvi Þorgeirsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, hefur fjölbreyttan bakgrunn á sviði verkfræði, læknisfræði og lýðheilsufræða. Hann hóf námsferil sinn í verkfræði en færði sig yfir í læknanám. Að því loknu starfaði Tryggvi sem læknir og lærði loks lýðheilsuvísindi við Harvard School of Public Health.

Lausn fyrirtækisins gerir notendum kleift að nota tækni við meðferð eða þjálfun, sérstaklega til að takast á við lífsstílstengda sjúkdóma eða áhættuþætti – áður en þeir verða verulegt vandamál.

„Þessir kvillar eru til dæmis offita, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómar. Lífsstílstengdir kvillar eru 80% af þeim sjúkdómum sem heilbrigðiskerfið er að fást við,“ segir Tryggvi. Þessir kvillar eiga það allir sammerkt að þegar þeir hafa grafið um sig er erfitt að losna við þá. „Ef þú horfir á stóru myndina eru 80% af kostnaði heilbrigðiskerfisins út af þessum kvillum og 86% dauðsfalla í Vestur-Evrópu eru út af lífsstílstengdum, langvinnum kvillum. Þegar ég starfaði sem læknir upplifði ég á hverjum einasta degi að ég væri að slökkva elda sem maður hefði viljað fyrirbyggja. Þannig varð fyrirbyggjandi læknisfræði mín ástríða og ég nota tæknina til að styðja við það.“

Mikill gæðastimpill

Viðskiptavinir SidekickHealth eru fyrst og fremst fyrirtæki og heilbrigðisstofnanir erlendis. „Núna nýlega hafa lyfjafyrirtækin svo fært sig inn á þennan markað. Á síðustu mánuðum höfum við komist í samband við fjögur stór lyfjafyrirtæki og Roche gaf okkur mjög skemmtilegt tækifæri til að kynna okkur fyrir þeim. Okkur var boðið að taka þátt á ráðstefnu Roche og vorum á endanum valin af dómnefnd stjórnenda. Þannig fengum við rosalega góða kynningu yfir allt fyrirtækið og í kjölfarið er verið að kanna samstarfsfleti. Þetta er mikill gæðastimpill á vöruna okkar,“ segir Tryggvi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .