Fimm milljarða víkjandi lán sem ríkissjóður skuldbatt sig til að leggja Byr til í október 2010 fylgir ekki með í kaupum Íslandsbanka á Byr en tekið skal fram að Byr hafði ekki dregið á lánið.

Hins vegar er að finna ákvæði í nýsamþykktum fjáraukalögum, um heimild til fjárveitingar vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, að semja í stað víkjandi lánsins til Byrs um allt að fimm milljarða króna mögulega lausafjárfyrirgreiðslu við Íslandsbanka.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hefur ekki verið gengið frá lausafjárfyrirgreiðslu við bankann enda sé hún eðli málsins samkvæmt háð samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA.