„Eins og áætlanir standa núna þá ætlum við að opna sumarið 2015,“ segir Björn Friðþjófsson, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Tréverks á Dalvík. Á teikniborði hans er 100 herbergja þriggja stjörnu hótel sem fyrirhugað er að reisa á Akureyri. Félagið Norðurbrú fjármagnar verkið og hefur það fengið úthlutað lóð sem hótelið á að standa á.

„Við hótelið verður skemmtilegur útigarður og einnig verður gert ráð fyrir verönd upp á þakinu. Hótelið verður staðsett í innbæ Akureyrar, Hafnarstræti 80. Það verður því afar vel staðsett og göngufæri í miðbæinn og alla helstu staði Akureyrar. Síðan er pollurinn hinum megin við götuna,“ segir Björn í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segist hafa fulla trú á því að ferðamönnum muni fjölga áfram á næstu árum og telur því næga þörf á nýju hóteli.

Í frétt á Vikudegi segir að að baki Norðurbrú standi öflugir fjárfestar á Norður- og Suðurlandi. Tréverk hefur verið umsvifamikið fyrirtæki í byggingariðnaðinum á Eyjafjarðarsvæðinu og næsta stóra verkefni fyrirtækisins er bygging þessa hótels, gangi allar áætlanir eftir.