Verði flugstarfsemi færð undir gildissvið tilskipunar Evrópusambandsins um viðskiptakerfi með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda kann það að hafa meiri áhrif á flugstarfsemi á Íslandi en víða annars staðar, að því er fram kemur í upplýsingum frá viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins. Íslensk stjórnvöld hafa fylgst vel með framvindu mála allt frá því að fyrstu hugmyndir þessa efnis voru kynntar hjá Evrópusambandinu og komið sjónarmiðum sínum á framfæri við umræðu málsins.

Gert er ráð fyrir að tilskipunin verði samþykkt á seinni hluta þessa árs eða jafnvel fyrr.

ESB leggur ríka áherslu á að flugstarfsemi verði færð undir gildissvið umræddrar tilskipunar þar eð losun frá flugi eykst stöðugt. Tillaga að slíkri tilskipun er nú til umfjöllunar hjá stofnunum sambandsins, þ.e. Evrópuþinginu og Evrópuráðinu og meðal annars í athugun hversu hátt hlutfall losunarheimilda skuli settar á uppboð og við hvað skuli miðað þegar losunarheimildum er úthlutað. Þá hefur gildistaka einnig verið til umræðu, þ.e. frá hvaða tíma flugstarfsemi verður gert skylt að afla sér losunarheimilda.

Samkvæmt upplýsingum frá viðskiptasviði utanríkisráðuneytisins virðist vera almennt samkomulag hjá stofnunum ESB um að fella flugstarfsemi undir gildissvið tilskipunarinnar á því skuldbindingartímabili sem nú er nýhafið og miðast við Kýótó-bókunina, þ.e. 2008-2012, og er helst rætt um 2012 í því sambandi. Nokkrar umræður hafa verið um hvort eingöngu skuli miðað við flug innan ESB en almenn samstaða virðist vera um að allt flug skuli falla undir, bæði innan ESB og til og frá ríkjum ESB. Þá er líklegt að magn losunarheimilda vegna flugs muni nema á bilinu 90 - 100 % af meðaltali viðmiðunaráranna 2004-2006 og að um 10% heimildanna verði settar á uppboð.