*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 19. apríl 2019 11:57

Fyrirkomulag gjaldsins óákveðið

Kostnaður við að fá sendingar hingað til lands með Íslandspósti ohf. (ÍSP) mun hækka frá og með 15. maí næstkomandi.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Kostnaður við að fá sendingar hingað til lands með Íslandspósti ohf. (ÍSP) mun hækka frá og með 15. maí næstkomandi. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hve hátt gjaldið verður eða hvort það mun leggjast jafnt á allar sendingar eður ei. 

Rekstur ÍSP hefur verið í járnum undanfarið. Síðasta haust fékk félagið 500 milljónir í neyðarlán frá ríkinu, til að mæta lausafjárþurrð, eftir að Landsbankinn lokaði á frekari lánalínur þar sem veðrými reyndist uppurið. Alþingi samþykkti fyrir jól heimild til að lána félaginu allt að milljarð til viðbótar en í mars lá fyrir álit Ríkisábyrgðarsjóðs þess efnis að rekstrar- og lausafjárvandi fyrirtækisins væri of alvarlegur til að hann yrði leystur með lánveitingum. Á hluthafafundi skömmu síðar var því samþykkt heimild til að auka hlutafé um allt að 1,5 milljarða.

Kínasendingar…

Samkvæmt ÍSP má tapið rekja til svokallaðra „Kínasendinga“. Í gildi er samkomulag Alþjóðapóstssambandsins (UPU) um að rekstrarleyfishöfum í viðtökuríki beri að standa skil á kostnaði við afhendingu sendinga. Afhendingaraðili á þó rétt á endurgreiðslu frá aðila í sendingarríki. Samkomulagið á rætur að rekja til sjöunda áratugarins en því fylgja tilslakanir til þróunarríkja. Hin „þróuðu“ ríki niðurgreiða því um þrjá fjórðu kostnaðar við sendingar frá þróunarríkjum. Á þeim tíma taldist Kína sem þróunarríki og hefur það haldið þeirri stöðu sinni síðan þá.

Lagabreytingunni nú er ætlað að draga úr þessu tapi og veita ÍSP heimild til að velta þessum kostnaði, sem hingað til hefur verið niðurgreiddur af ríkisfyrirtækinu, yfir á neytendur. Af athugasemdum frumvarpsins má ráða að vegna breytingarinnar muni tekjur ÍSP aukast um tæpar 600 milljónir króna á ársgrundvelli. Samkvæmt tölum frá Póstog fjarskiptastofnun (PFS) nam tap ÍSP vegna erlendra sendinga 731 milljón árið 2017. Árið áður nam tapið 649 milljónum en það ár var 142 milljóna tap af sendingum og rekstri alþjónustu innanlands.

Ekki liggja fyrir tölur fyrir árið 2018 og þá liggur ekki fyrir hvernig erlenda alþjónustutapið skiptist á milli „þróaðra“ og „vanþróaðra“ ríkja samkvæmt endastöðvasamkomulagi UPU. Því hefur verið velt upp að mögulega viðurkenni erlendir rekstrarleyfishafar ekki yfirbyggingarkostnað ÍSP og greiði því ekki jafn mikið og fyrirtækið ætlar þeim.

Tímasetning lagabreytingarinnar hefur vakið athygli í ljósi þess að hjá Alþingi liggur frumvarp til nýrrar heildarlöggjafar um póstþjónustu. Fram hefur komið að frumkvæði að breytingunni kom frá fyrirtækinu og barst sú beiðni síðasta haust. Er það reyndin þrátt fyrir að baggi fyrirtækisins vegna Kínasendinga hafi orðið þyngri ár frá ári, að árinu í fyrra undanskildu.

Í skriflegu svari ÍSP við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir að ekki liggi fyrir hvernig fyrirkomulag gjaldtökunnar verði. Viðbúið sé þó að um 600 krónur muni bætast við hverja sendingu en ekki liggi fyrir hvort um flatt gjald verði að ræða eður ei eða hvort gjaldið verði mishátt eftir því hvar á landinu viðtakandi er búsettur. Breytingin tekur gildi 15. maí. Sendingar sem leggja af stað fyrir þann tíma taka ekki viðbótargjald.

 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

 

Stikkorð: Íslandspóstur ohf. samkeppni