*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 1. september 2021 20:01

Fyrirliðinn steikti 15 þúsund laufabrauð

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, rekur fyrirtækið Gamli Bakstur. Laufabrauðsgerð er flaggskip fyrirtækisins.

Sveinn Ólafur Melsted
Í nægu er að snúast hjá Höskuldi Gunnlaugssyni. Ásamt því að reka Gamla Bakstur er hann fyrirliði Íslandsmeistaraefnanna í Breiðabliki og stundar háskólanám í viðskiptafræði.
Aðsend mynd

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði meistaraflokks Breiðabliks í knattspyrnu, er kannski þekktastur fyrir hæfileika sína inni á knattspyrnuvellinum. Það er þó ekki síður í nægu að snúast hjá honum utan vallar, því undir lok síðasta árs ákvað Höskuldur að hefja eigin atvinnurekstur, er hann setti á fót fyrirtækið Gamla Bakstur.

Árið 2017 hóf Höskuldur nám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík og kveðst hann um leið hafa ákveðið að hefja eigin rekstur, til þess að fá sem mest út úr náminu. Höskuldur þurfti þó að setja fyrirtækjaáformin á ís í kjölfar þess að hafa verið keyptur til sænska úrvalsdeildarliðsins Halmstad sama ár. Eftir tvö ár í Svíþjóð sneri Höskuldur á ný heim til Íslands og fór þá að huga að markmiðinu um eigin atvinnurekstur á nýjan leik.

„Á einhverjum tímapunkti fór ég mikið að hugsa um það vöruframboð af laufabrauði sem væri í boði á innlendum markaði. Eins og margar aðrar íslenskar fjölskyldur hefur fjölskyldan mín þá jólahefð að hittast fyrir hver jól og skera út heimagert laufabrauð eftir uppskrift frá ömmu minni. Mér fannst vera ákveðið gat á markaðnum og tók eftir því að í verslunum var ekki hægt að nálgast laufabrauð álíka þeim sem eru handgerð í heimahúsum, heldur einungis þessi hefðbundnu fjöldaframleiddu laufabrauð. Ég ákvað því að koma með handgert hágæða laufabrauð inn á markaðinn," segir Höskuldur um það hver var kveikjan að stofnun Gamla Baksturs.

Hlustaði ekki á föður sinn

Eftir að hafa tekið ákvörðunina fór Höskuldur á fullt í að stofna fyrirtæki í kringum reksturinn og setja sig í samband við smásöluverslanir til að kynna vöruna. „Ég setti mig í samband við Hagkaup og kynnti mig og starfsemina fyrir vörustjóra verslunarinnar, þar sem mér þótti varan smellpassa í Hagkaupsverslanir því verslanirnar leggja áherslu á gott vöruúrval af hágæða matvörum." Tekið var vel í áform Höskuldar og rötuðu laufabrauð Gamla Baksturs í hillur verslana Hagkaupa í kringum síðustu jól.

Höskuldur segir kíminn frá því að faðir hans hafi ekki haft mikla trú á þessum áformum, þar sem hann efaðist um að Íslendingar væru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir laufabrauð, þó svo að það væri handgert. Þrátt fyrir að hlusta yfirleitt á föður sinn ákvað Höskuldur þó í þetta skiptið að láta ráð hans sem vind um eyru þjóta og sér hann ekki eftir því, þar sem laufabrauðssalan fór fram úr björtustu vonum. Alls steikti Höskuldur 15 þúsund stykki af laufabrauði fyrir jólavertíðina. Hann segir laufabrauðin hafa rokið út eins og heitar lummur og selst upp á skömmum tíma. Höskuldur ákvað einnig, til að lágmarka matarsóun, að steikja og selja afskorninga sem mynduðust við laufabrauðsgerðina sem jólasnakk, í stað þess að henda þeim.

Mælir með rekstri samhliða námi

Smátt og smátt hefur vöruúrval Gamla Baksturs stækkað. „Laufabrauðssalan gekk það vel að ég hugsaði með mér að ég gæti verið kominn fram með vörumerki sem væri gott að halda á lofti allan ársins hring, enda einskorðast laufabrauðssalan við tímabilið í kringum jólin. Það lá því beinast við að leita á ný í uppskriftabók fjölskyldunnar. Eldbökuðu flatkökurnar eru gerðar eftir uppskrift og aðferð foreldra minna, en þau bökuðu flatkökur fyrir gesti þegar þau ráku veitingasöluna í Jónshúsi í Kaupmannahöfn á sínum tíma. Sveitakleinurnar eiga svo rætur sínar að rekja til móðursystur minnar sem fékk uppskriftina frá eldri konu. Birgjarnir mínir, bakararnir Guðni og Einar Hólm, lumuðu svo á sunnudagsflatkökum sem eru svolítið sætari og matarmeiri en hefðbundnar flatkökur, og vestfirskum hveitikökum," segir Höskuldur og kveðst himinlifandi yfir því hve góðar móttökur ofangreindar vörur hafa fengið.

Enn sem komið er er Höskuldur eini starfsmaður fyrirtækisins en með tíð og tíma stefnir hann á að stækka fyrirtækið hægt og rólega. Hann sér fyrir sér að laufabrauðsgerðin verði áfram flaggskip fyrirtækisins og stefnir á að auka framboðið af þeim í næstu jólavertíð. Þá stefnir hann einnig á að hefja sölu á frosnu laufabrauðsdeigi, þannig að fólk geti dundað sér við að skera það út sjálft.

Hann hvetur alla háskólanema sem hafa tök á að stofna eigin rekstur samhliða háskólanámi til að kýla á það. Það veiti dýrmæta reynslu að eiga möguleika á því að geta nýtt hluti sem lært er um í náminu samstundis í eigin atvinnurekstri.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um miklar sviptingar í eftirspurn eftir ólíkum íbúðalánaformum og rætt við Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka.
  • Fjallað um nýlegan dóm Héraðsdóm Reykjavíkur í máli smálánafyrirtækis gegn ríkinu.
  • Sælgætisframleiðendur landsins kusu að nýta ekki úrræði stjórnvalda þrátt fyrir tímabundinn verkefnaskort. Aðfangakeðjan gæti reynst þeim erfið á næstunni.
  • Rætt er við nýráðinn forstöðumann Opna háskólans, meðal annars um reynslu hans sem íþróttasálfræðing.
  • Rúmlega áratugur er síðan ákveðið var að innleiða framleiðslutengda fjármögnun á Landspítalanum en það hefur enn ekki verið gert.
  • Rætt við Jón Trausta Ólafsson, framkvæmdastjóra Bílaumboðsins Öskju, um bílamarkaðinn og hvers vegna framboð notaðra bíla hefur dregist saman á faraldurstímum.
  • Úttekt á afkomu tryggingafélaganna þriggja sem skráð eru í Kauphöllina á fyrri helmingi árs.
  • Týr er á sínum stað, auk hrafnanna Hugins og Munins.
  • Óðinn skrifar um heilsugæsluna og Fréttablaðið.