Fangelsið Akureyri var formlega opnað í dag eftir gagngerar endurbætur. Þar með lauk öðrum áfanga í áætlun um endurnýjun og uppbyggingu fangelsa í landinu, sem mótuð hefur verið af dóms- og kirkjumálaráðuneyti og fangelsismálastofnun. Kostnaður vegna framkvæmda við fangelsið á Akureyri fór um 14% fram úr áætlun samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu, og nam um 260 milljónum króna þegar upp var staðið.

Elda, þrífa, þvo og æfa

Aðbúnaður í fangelsinu hefur verið aðlagaður að nútímakröfum í fangelsismálum. Sex fangaverðir starfa í fangelsinu og hefur stöðugildum verið fjölgað um tvo. Eftir endurbætur er unnt að vista 10 fanga í fangelsinu, þar af eru tvö rými sem geta hýst kvenfanga. Í fangelsinu eru vistaðir fyrirmyndarfangar, enda stundi þeir vinnu eða nám í fangelsinu auk þess skulu fangar taka þátt í endurhæfingaráætlun. Fangar sjá að mestu um sig sjálfa, þ.e. elda, þrífa, þvo þvott og þjálfast í öðru sem tengist almennri lífsleikni. „Þar með koma þeir betur undirbúnir út í samfélagið að lokinni fangavistinni og jafnframt er dregið úr líkum á frekari afbrotum síðar,” segir í tilkynningu frá fangelsismálastofnun.