Reiknistofa bankanna (RB) hlaut í gær viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndafyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningin er veitt af Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands. Samstarfsaðilar rannsóknarmiðstöðvarinnar eru Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq og Samtök atvinnulífsins.

Fyrirmyndar fyrirtæki í góðum stjórnarháttum þurfa að uppfylla fjölmörg skilyrði en Viðskiptaráð hefur unnið leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Fyrsta útgáfa leiðbeininganna kom út árið 2004 og hafa þær verið endurskoðaðar með reglubundnum hætti frá þeim tíma. Samkvæmt skilgreiningu Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti ákvarðast góðir stjórnarhættir t.d. af samsetningu og skipulagi stjórnar, samskiptum hennar við framkvæmdastjórn og hluthafa og þeim aðferðum sem hún velur til að ná markmiðum sínum.

„Við erum mjög stolt af þessari viðurkenningu en unnið hefur verið markvisst að því að efla góða stjórnarhætti í RB á undaförnum árum“ segir Friðrik Þór Snorrason forstjóri RB.  „Góðir stjórnhættir skipta miklu máli og eru gott stjórntæki til að minnka áhættu, auka öryggi og ákvarða og fylgja eftir stefnu fyrirtækisins. Ákvarðanataka yfirstjórnar fyrirtækisins verður betri og auknar líkur á að réttra hagsmuna sé gætt“.

Ítarlegt viðtal við Friðrik er að finna í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .