Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknaseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu, segir fjármálakerfið vera flóknasta kerfi sem mannskepnan hafi búið til – næstum óendanlega flókið. Hann gaf nýverið út bókina The Illusion of Control, þar sem hann leitast við að útskýra hvers vegna þjóðhagsvarúðarkerfið og regluverkið almennt í kringum fjármálakerfið sé frekar til þess fallið að ýta undir fjármálakrísur en að koma í veg fyrir þær.

Í kjölfar fjármálakrísunnar 2008 hafi Íslendingar sett bæði belti og axlabönd á fjármálakerfið, en sú staða ýti undir aðra fjármálakrísu. Jón segir að í því samhengi megi nefna áhrifin af heitu kartöflunni, sem sé þekkt líkingamál í hagfræði.

„Segjum sem svo að allir bankarnir hegði sér varfærnislega og fylgi regluverkinu í orði og á borði. Síðan komi einhver skellur – til dæmis frá Kína, innrás Rússa í Úkraínu, heimsfaraldur eða bara hvað sem er. Þá blæs út áhættan í eignasafni banka, sem haga sér varfærnislega og bregðast því allir við með því að selja þá hluti sem finna fyrir skellinum. Það er vitað að áhættan er fylgin yfir eignaflokka, þannig að bankarnir munu einnig byrja að selja skyldar eignir. Það veldur því að allt verð á markaði hrynur.“

Þetta sé fyrirséð afleiðing þess að allir hagi sér varfærnislega. Aftur á móti ef einhver hagi sér óvarfærnislega og nýti sér gróðatækifæri í aðstæðunum myndist gólf undir verðfallið.

Jón telur þetta vera gott dæmi um svokallaða rökvillu samsetningar. Henni sé best lýst með efnasambandinu H2O, þ.e. fyrst hvorki vetni, H, né súrefni, O, sé blautt geti efnasambandið vatn, H2O, ekki verið það heldur.

„Rökvillan felst í því að ef hlutar einhvers séu á einhvern hátt geti samsetning þeirra ekki verið eitthvað annað. Rökvillan hjá yfirvöldunum er þá sú að ef allir bankarnir hagi sér varfærnislega verði fjármálakerfið stöðugt, sem er rangt.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.