Tony Blair mun láta ef embætti forsætisráðherra Bretlands í lok næsta mánaðar. Hann er með þaulsetnari mönnum í embættinu og hefur markað djúp spor í stjórnmálasöguna.

Anthony Charles Lynton Blair var réttur maður á réttum stað þegar hann tók við formennsku í Verkamannaflokknum árið 1994 í kjölfar þess að John Smith, nýkjörinn formaður flokksins, varð bráðkvaddur. Flestum var ljóst að hann myndi geta blásið nýju lífi í stjórnmálaafl sem byggði hugmyndafræði sína á kennisetningum sem döguðu uppi sem nátttröll er Sovétríkin hrundu. Barátta hans fyrir umorðun á þjóðnýtingarákvæði í stefnuskrá flokksins var til marks um nýjar áherslur sem höfðu mikil áhrif á stjórnmálalíf innan Bretland og utan. Þrátt fyrir að aðdáun jafnaðarmanna á Tony Blair hafi farið þverrandi undanfarin ár og hugtakið ?þriðja leiðin? heyrist ekki lengur eru áhrif hans jafnaðarmannahreyfingar víða um Evrópu óumdeilanleg: Hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Aðdáendur og andstæðingar Blairs, en fjölgað hefur í röðum þeirra síðarnefndu undanfarið, geta vart deilt um að hann á glæsilegan pólitískan feril að baki. Í áratug hefur hann drottnað yfir breskum stjórnmálum auk þess sem hann hefur látið til sín taka í alþjóðamálum. Þrír sigrar í röð í þingkosningum gera hann að sigursælasta leiðtoga Verkamannaflokksins og sé litið framhjá valdaferli Margaret Thacther þarf að fara aftur til tíma Napóleon-styrjaldanna til þess að finna þaulsetnari íbúa í Downing-stræti 10.

Góðæri hefur meira og minna ríkt í Bretlandi frá því að Blair komst til valda árið 1997. Hagkerfið er kröftugt og kvikt og þegnarnir virðast kunna vel við kjarnann í efnahagsstefnu Blairs - sem felst í að hlutverk ríkisvaldsins sé að
hvetja til aukins hagvaxtar með auknu frjálsræði jafnfram því að stuðla að réttlátri þjóðfélagsskipan. Það segir sína sögu að þrátt fyrir djúpstæðar óvinsældir forsætisráðherrans um þessar mundir telur ríflega helmingur kjósenda þegar allt kemur til alls að hann staðið sig vel í embætti. Reyndar setja margir spurningarmerki við hvort að eigna megi Blair heiðurinn af styrkri efnahagsstjórn: Þeir telja að hann eigi Gordon Brown, fjármálaráðherra og arftaki forsætisráðherrans.

En það er ekki hagstjórnin sem hefur grafið undan stöðu Blairs; utanríkismálin ráða þar mestu um. Rót óvinsælda hans má fyrst og fremst rekja til stuðnings hans við þá ákvörðun George Bush, forseta Bandaríkjanna, að ráðast
inn í Írak árið 2003 og hins nána sambands sem hefur ríkt milli þeirra. Eitt orð kemur upp í huga flestra þegar þeir nafn Anthony Eden og það er Súes. Margir vilja meina að sagan muni fara svipuðum höndum um Tony Blair og að orðið sem verður samtengt pólitískri arfleið Blairs verði: Írak. Hryðjuverkaárásirnar á New York og Washington D.C. þann 11. september árið 2001 mörkuðu þáttaskil. Blair steig fram tók allan vafa um hvar bresk stjórnvöld stóðu. Skilaboð hans til Bandaríkjamanna: Við stóðum með ykkur í upphafi, og við stöndum með ykkur uns yfir líkur.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag