RVK Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, ætlar að kynna ný sjónvarpsverkefni á Mipcom kaupráðstefnunni í Cannes í næsta mánuði. Fjallað er um málið á vef Variety.

Meðal þess sem RVK Studios mun kynna fyrir fjárfestum á Mipcom ráðstefnunni er sjónvarpsþáttaröðin Vatnajökull. Þáttaröðin fjallar um björgunarsveitarmenn á Vatnajökli sem leita af týndum vísindamönnum en eitthvað dularfullt á sér stað á jöklinum. Þá verða einnig kynntar þáttaraðirnar First Degree og Trapped. Sú fyrrnefnda er dramaþáttaröð sem gerist í úthverfi og sú síðarnefnda spennutryllir í litlu þorpi.

Þá segir í frétt Variety að tæknibrelludeild RVK Studios, RVX, sé að vinna með Ryan Gosling að nýjustu kvikmynd hans, How to Catch a Monster. "Ísland er mjög framarlega í tölvutækni," segir Baltasar Kormákur í samtali við Variety sem nú er staddur í Nepal að klífa Himalaya fjöllin með leikarahóp næstu kvikmyndar sinnar, Everest, til þess að undirbúa hópinn undir tökur á þeirri mynd af því er Variety greinir frá.