*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 10. mars 2020 11:44

Fyrirtæki fá lengri frest vegna skatta

Stjórnvöld ætla að fella niður gistináttaskatt tímabundið auk annarra aðgerða til að örva einkaneyslu út af kórónaveirunni.

Ritstjórn
Forystumenn ríkisstjórnarinnar eru þau Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokks
Haraldur Guðjónsson

Helstu aðgerðir stjórnvalda vegna útbreiðslu kórónaveirunnar Covid-19 fela í sér frestun og aukið svigrúm til fyrirtækja vegna skattgreiðslna og annarra opinberra gjalda, auk aðgerða til að reyna að örva einkaneyslu.

Þetta kemur fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar sem nú stendur yfir, en þar kemur fram að fella eigi niður tímabundið íþyngjandi gjöld, eins og gistináttaskatt, á fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Jafnframt hyggst stjórnin grípa til aðgerða til að bæta lausafjárstöðu fjármálakerfisins með því að flytja innstæður svokallaðs ÍL sjóðs sem er í Seðlabankanum á innlánsreikninga viðskiptabankanna.

Loks verði aukinn kraftur settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu, auk annarra aðgerða sem sett verða í samráð og skoðuð. Frumvarp um afmarkaðar samstarfsfjárfestingar verður lagt fram strax nú á vorþingi.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að vegna áhrifa veirunnar væru forsendur fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar brostnar, og því sé vinna við endurskoðun stefnunnar hafin, sem þýðir aftur að frestað verði að leggja fram fjármálaáætlun.

Sem liður í fjárfestingarátaki stjórnvalda er gert ráð fyrir sölu Íslandsbanka að hluta til eða heild, ef aðstæður eru hagfelldar.