Fyrirtækið Sinnum, sem er í eigu Ásdísar Höllu Bragadóttur, fyrrverandi bæjarstjóra í Garðabæ, á í tugmilljóna króna viðskiptum við Garðabæ á hverju ári án þess að útboð hafi farið fram. Sinnum sér um heimaþjónustu við aldraða í Garðabæ. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að forsvarsmenn keppinautarins Vinun, sem er eldra fyrirtæki en Sinnum, telji að horft sé fram hjá sér í Garðabæ.

Samningur Sinnum og Garðabæjar er frá í janúar árið 2009. Á síðastliðnum tveimur árum, þ.e. árin 2012 og 2013, hefur bæjarfélagið greitt Sinnum tæpar 85 milljónir króna. Innkaupareglur bæjarins kveða hins vegar á um að útboðum skuli beita við innkaup þegar áætluð samningsfjárhæð vegna kaupa á þjónustu er yfir 15 milljónir króna. Til viðbótar segir í reglum um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu að fari þjónustukaup sveitarfélags yfir 33 milljónir þurfi að bjóða þau út á opnum markaði. Það hefur ekki verið gert í Garðabæ.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir í samtali við Fréttablaðið þetta eiga sér eðlilegar skýringar. „Þegar við ákváðum fyrst að koma þessu í hendur einkaaðila könnuðum við markaðinn og þá kom í ljós að aðeins eitt fyrirtæki sinnir þessum málum á einkamarkaði. Ákveðið var að fara þessa leið á sínum tíma til að bæta þjónustuna við þá sem þurfa á félagslegri heimaþjónustu að halda,“ segir hann. Tekið er fram að Gunnar vildi ekki fara út í hvernig bærinn hefði staðið að athugun á fyrirtækjunum.