„Félag atvinnurekenda hvetur félagsmenn sína til að fylgjast vel með þessu máli og að leita tilboða í flutninga sína til að sannreyna að samráð sé ekki fyrir hendi og samkeppni sé virk,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Félagið telur ásakanir á hendur stjórnendum og starfsmönnum Eimskips og Samskipa, sem fram koma í kæru Samkeppniseftirlitsins til sérstaks saksóknara, mjög alvarlegar.

Mörg aðildarfyrirtæki félagsins eru stórir viðskiptavinir skipafélaganna. Félagið kveðst lengi hafa verið þeirrar skoðunar að talsvert vantaði upp á virka samkeppni á sjóflutningamarkaðnum. Sannist þær ásakanir, sem Samkeppniseftirlitið ber á skipafélögin, sé ljóst að mörg fyrirtæki muni eiga skaðabótakröfu á þau.