Mörg fyrirtæki í Bretlandi eru hætt að auglýsa á YouTube eftir að breska dagblaðið The Times sýndi fram á auglýsingar þeirra birtust framan við myndskeið sem sýndu ungmenni með óviðeigandi og jafnvel óhugnanlegum hætti.

Fjallað er um málið á vef Times í dag en þar er tekið dæmi af rásinni Toy Freaks, sem hafði fengið sjö milljarða áhorf frá því hún var sett á laggirnar en YouTube lokaði rásinni í gær. Meðal þess efnis sem mátti finna þar voru myndskeið af sjö ára stúlku sem blæðir úr munninum eftir að hún missti barnatönn og myndskeið af sömu stelpu og systur hennar þar sem þær eru hræddar með snákum.

Toy Freaks rásin var afar vinsæl og hafði birt um 500 myndbönd síðan 2011 þegar hún var stofnuð. Heildaráhorf á rásarinnar námu sjö milljörðum áhorfa en hún var um tíma ein vinsælasta rásin á YouTube.

Greiningarfyrirtækið Social Blade telur föður stúlknanna, sem var eigandi rásarinnar, hafa hagnast um 8,7 milljónir punda á ári og að Google, eigandi YouTube, hafi þénað um 7,1 milljónir punda á ári af auglýsingatekjum en Google er nú harðlega gagnrýnt fyrir að hafa ekki staðið sig betur við að loka rásum sem birta slíkt efni.