Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, telur að auka þurfi veg kvenna innan japanskra fyrirtækja. Hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum japanskra fyrirtækja er aðeins 8%. Abe vill að árið 2020 verði þetta hlutfall komið í 30%.

Í apríl í fyrra kynnti atvinnuvegaráðuneyti Japans nýtt átak til að ná þessu markmiði. Alls voru 1,4 milljónir dollara lagðar í verkefnið, sem snýst um að umbuna þeim fyrirtækjum sem ráða konur í stjórnunarstörf með fjárhagslegum stuðningi. Var talið að um 400 fyrirtæki myndu sækjast eftir því að fá þennan stuðning. Núna 17 mánuðum eftir að verkefnið fór af stað hefur ekkert fyrirtæki sótt um styrkinn.

Greint er frá þessu á vefnum japantimes.co.jp .