Undanfarnar tíu vikur hafa Icelandic Startups keyrt hraðalinn Hringiðu seinustu en þetta er í fyrsta sinn sem hraðallinn fer fram. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandic Startups.

Markmið Hringiðu er að hér rísi stór og stöndug fyrirtæki sem byggja hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins. Hringrásarhagkerfið er hagkerfi sem gengur út á minni sóun og að vörur, hlutir og efni haldi verðmæti og notagildi sínu eins og lengi og hægt er. Bakhjarlar Hringiðu eru hópur fyrirtækja og stofnana sem sjálf vinnan innan hringrásarhagkerfisins.

Sjö sprotafyrirtæki munu kynna verkefni sín á fjárfestadeginum sem haldin verður föstudaginn 11. Júní í Grósku. Þrjú af af þeim sjö teymum sem nú klára hraðalinn fengu styrk í Vorúthlutun Tækniþróunarsjóðs nú á dögunum. Verkefnin sem verða kynnt á föstudaginn eru fjölbreytt; alsjálfvirk gróðurhús, endurunnið plast, hampur í stað frauðplasts og lífrænn áburður framleiddur af innfluttum ánamöðkum svo dæmi séu tekin.

Í samstarfi við EVRIS á Íslandi og Inspiralia á Spáni stefna flest þessi fyrirtækja á að sækja áfram í styrkarsjóði á vegum Evrópusambandsins. Verkefnin ganga út á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, nýta affall og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Þannig reyna þau að stuðla að því að Ísland standi við skuldbindingar sínar í umhverfismálum.

Bakhjarlar Hringiðu eru Orkuveita Reykjavíkur, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Faxaflóahafnir, Terra, Sorpa og Þróunarfélögin á Grundartanga og Breið.

Fjárfestadagurinn fer fram í Grósku og er viðburðurinn öllum opinn en fólki er bent á að skrá sig á hringida.is.