Samfélagsábyrgð fyrirtækja er ekki nýtt hugtak, en merking þess hefur að einhverju leyti breyst í gegnum árin og er því nokkuð óljós í hugum margra. Steingrímur Sigurgeirsson og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, ráðgjafar hjá Capacent, hafa starfað með fyrirtækjum að stefnumótun á sviði samfélagsábyrgðar en þau hafa bæði lokið vottuðu námskeiði í gerð svokallaðra GRI-sjálfbærniskýrslna í Bretlandi.

Steingrímur segir í sjálfu sér ekki skrýtið að mismunandi merkingar séu lagðar í hugtök er tengjast samfélagsábyrgð. Hvort sem er hugtakið samfélagsábyrgð eða sjálfbærni. „Það er auðvitað ekki nýtt að fyrirtæki axli samfélagslega ábyrgð í einhverri mynd. Þegar rætt er um samfélagsábyrgð í dag er hins vegar átt við kerfisbundnari nálgun en áður. Enn í dag tengja margir samfélagsábyrgð fyrst og fremst við að fyrirtæki láti fé af hendi rakna til góðra málefna. Samfélagsábyrgð felur hins vegar í sér að fyrirtæki geri sér grein fyrir að starfsemi þeirra hefur áhrif á umhverfið, jafnt efnahagslega, félagslega sem umhverfislega. Þau reyna að meta þau áhrif og mæla og draga úr óæskilegum áhrifum starfseminnar. Þetta snýst um ábyrgan rekstur, samfélagsábyrgðin þarf að verða hluti af genamengi fyrirtækjanna. Sömuleiðis tengja margir hugtakið sjálfbærni fyrst og fremst við umhverfismál. Þegar það er notað í tengslum við samfélagsábyrgð fyrirtækja er skírskotunin hins vegar mun víðtækari. Þetta snýst um að fyrirtæki lágmarki neikvæð áhrif starfseminnar, hvort sem áhrifin eru efnahagsleg, félagsleg eða umhverfisleg,“ segir Steingrímur.

Erlendis er vaxandi krafa um að fyrirtæki séu rekin á gagnsæjan hátt. Í Danmörku, Svíþjóð og Frakklandi eru nú gerðar kröfur til þess að fyrirtæki og stofnanir skili svokölluðum sjálfbærniskýrslum árlega ella geri grein fyrir hvers vegna þau kjósa að gera það ekki. Evrópusambandið er sömuleiðis langt komið með slíka tilskipun sem mun gilda á Evrópska efnahagssvæðinu.