Fyrirtækið Eylenda hefur ekki verið til í langan tíma, en einn stofnenda þess, María Hólmgrímsdóttir segist finna fyrir mikilli viðhorfsbreytingu á stuttum tíma hvað varðar stafræna markaðssetningu. „Frá nóvember í fyrra og þar til núna hefur orðið svakaleg breyting,“ segir hún.

Fyrirtækið var stofnað af Maríu og Tönju Ýr Ástþórsdóttur, en í teyminu eru sjö einstaklingar. Eylenda vinnur náið með fimmtán áhrifavöldum. Þegar María er spurð að því hvernig fyrirtækið virkar segir hún: „Það sem við erum í rauninni að gera er að við sjáum um allar auglýsingar og kynningar sem koma fram á miðlunum hjá þessum áhrifavöldum og einnig almennt að hjálpa þeim við allt utanumhald á samfélagsmiðlunum. Einnig hjálpum við fyrirtækjum til að finna réttu aðilana sem henta vörumerkinu þeirra. Flestum fyrirtækjum þykir mjög vænt um vörumerkin sín og vilja að þau fari í réttar hendur og það er það sem við erum að passa mjög vel,“ segir María. Hún bætir við að fyrirtækið sé alltaf til staðar fyrir viðskiptavini sína í verkefnum sem tengjast samfélagsmiðlum.

Tengja saman fyrirtæki og einstaklinga

María segir að það sé mismunandi hvernig samstarf áhrifavalda og fyrirtækja hefst. „Stundum er þetta þannig að það eru ákveðin fyrirtæki jafnvel draumafyrirtæki sem áhrifavaldarnir okkar vilja vinna með og þá kynnum við fyrirtækinu hugmyndina. Svo leita fyrirtækin einnig mikið til okkar. Sumir vita ekki neitt og sumir vita eitthvað. Þá komum við með tillögur hvað gæti hentað. Við setjum það svolítið saman,“ segir framkvæmdastjórinn.

Hún segir að ýmis fyrirtæki séu byrjuð að taka frá ákveðna „sneið af kökunni“ sem fer í markaðsstarf, sérstaklega í stafræna markaðsstarfsemi. „Þá er hluti kominn til okkar sem við erum að stýra,“ tekur María fram.

Hverjir eru þessir áhrifavaldar?

Eylenda vinnur náið með fimmtán áhrifavöldum en þar má finna stjörnur sem skína skært á öldum ljósvakamiðlanna. Það eru nöfn sem margir sem fylgjast með samfélagsmiðlum kannast við, einstaklingar á borð við Örnu Ýr, Sunnevu Einars, Sólrúnu Diego og Gæja.

„Við höfum verið að vinna mjög mikið með þessu fólki. Flest okkar fólk er með marga fylgjendur og eru mikið í umræðunni og eru frekar stórir og hafa virkileg áhrif. Við erum að vinna með nokkurs konar fyrirmyndir. En hvað er áhrifavaldur? Það er örugglega enginn sem getur svarað því nákvæmlega, en það eru ákveðnar fyrirmyndir sem að fólk stekkur til eftir því sem þessi manneskja segir og gerir,“ segir María.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .