Á öðrum ársfjórðungi voru fyrirtæki annað hvort kaupendur eða seljendur íbúðarhúsnæðis í 27% tilvika á höfuðborgarsvæðinu að því er kemur fram í tölum Þjóðskrár. Í 73% tilvika seldu einstaklingar öðrum einstaklingum viðkomandi íbúð, en í 27% tilvika keypti fyrirtæki íbúð af einstaklingi, seldi einstaklingi íbúð, eða fyrirtæki seldi öðru fyrirtæki íbúð.

Meðalhlutdeild fyrirtækja á íbúðamarkaði frá öðrum fjórðungi 2006 er 26% og er hlutdeildin nú því mjög nálægt því meðaltali. Fyrirtæki voru umfangsmest á íbúðamarkaði á fjórða ársfjórðungi 2008 þegar hlutdeild þeirra var 38% af öllum viðskiptum með íbúðir. Hlutdeildin hefur ekki farið yfir 30% frá fyrsta fjórðungi 2010 þegar hún nam 32%.