Starfshópur um lagabreytingar og aðgerðir til að verjast kennitöluflakki og til að ná markmiðum laga um jöfnun kynja í stjórnum fyrirtækja vill að áréttað verði í lögum að stjórn, sem ekki uppfyllir kröfur laga um kynjahlutföll, teljist ekki löglega kjörin. Kemur þetta fram í tillögum hópsins, sem lesa má á vefsíðu Atvinnuvegaráðuneytisins .

Ef þetta yrði gert væri slík stjórn fyrirtækis ekki ályktunarbær og samkvæmt lögum skal taka bú félags til skipta tilkynni félagið ekki fyrirtækjaskrá um stjórn eða stjórnarmenn sem fullnægja skilyrðum laga innan árs frá lokum lögmælts frests. Til að þetta gerist verður ráðherra að gera kröfu um að félag sé tekið til skipta, en starfshópurinn leggur til að þetta vald verði fært frá ráðherra til fyrirtækjaskrár.

„Mun fyrirtækjaskrá því geta framfylgt ákvæðum beggja laga um kynjahlutföll, með því að krefjast skipta á þeim félögum sem ekki fara að lögunum. Sem undanfara að slíkum aðgerðum er lagt til að fyrirtækjaskrá verði veitt lagaheimild til að sekta félög sem ekki virða ákvæði laganna um jöfnun kynjahlutfalla. Þá er lagt til að fyrirtækjaskrá verði heimilt fyrir gildistöku ákvæðanna að birta lista yfir félög þau sem lögin taka til og hvort þau hafi náð þeim markmiðum sem lögin kveða á um. Er gert ráð fyrir að listinn verði uppfærður með reglulegu millibili,“ segir í greinargerð starfshópsins.

Í starfshópnum voru þau Helga Jónsdóttir frá Atvinnuvegaráðuneytinu, formaður hópsins, Halldór Grönvold tilnefndur af ASÍ, Haraldur I. Birgisson tilnefndur af Viðskiptaráði, Anna Mjöll Karlsdóttir tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu, Skúli Jónsson tilnefndur af Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, Böðvar Þórisson tilnefndur af Hagstofu Íslands og Ólafur Hauksson frá embætti Sérstaks saksóknara.