Bandaríska ráðgjafafyrirtækið Monitor Group fór nýverið í þrot. Íslandsvinurinn dr. Michael Porter, prófessor við Harvard-háskóla, stofnaði fyrirtækið ásamt fimm öðrum ráðgjöfum árið 1983. Porter er heimsþekktur fyrir ráðgjöf sína á sviði stjórnunar og klasafræða. Hann hefur í tvígang komið hingað til lands til að veita ráðgjöf og ræða um efnahagsmál.

Fram kemur í umfjöllun bandaríska tímaritsins Forbes um Monitor Group að mjög hafi dregið úr eftirspurn eftir ráðgjöf hjá fyrirtækinu þegar fjármálakreppan tók að láta á sér kræla. Staðan var orðin það slæm árið 2009 að eigendur fyrirtækisins urðu að leggja því til 4,5 milljónir dala, jafnvirði rúmlega hálfs milljarðs króna, og falla frá 20 milljóna dala kaupaukagreiðslum til að koma rekstrinum á réttan kjöl. Því til viðbótar tók Monitor Group að láni 51 milljón dala frá sjóðnum Caltius Capital Management. Í september síðastliðnum gátu stjórnendur fyrirtækisins ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðnum og fór reksturinn því í þrot í þessum mánuði.

Vantaði viðskiptavini

Í umfjöllun Forbes er dvalið við nokkur ráðgjafaverkefni Monitor Group og gagnrýnt að stjórnendur fyrirtækisins hefðu mátt vanda valið betur þegar þeir leituðu logandi ljósi að leiðum til að auka tekjur fyrirtækisins. Þetta var m.a. vinna fyrir einræðisstjórn Gaddafís.

Greinarhöfundur dvelur nokkuð við störf Porters, stefnu hans í ráðgjöf og leiðir til að bæta reksturinn. Niðurstaða greinarhöfundar Forbes er sú að kennisetningar Porter hafi ekki gengið til að koma rekstri Monitor Group á lygnan sjó. Það sem hafi farið með reksturinn var að viðskiptavinina vantaði.

Umfjöllun Forbes um Monitor Group