Margrét Sanders, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Deloitte, segir að mjög sterk hagræn rök séu fyrir því að nýta betur starfskrafta kvenna, einkum vel menntaðra og hæfra kvenna, bæði fyrir einstök fyrirtæki og einnig fyrir hagkerfið í heild sinni.

„Deloitte á alþjóðavísu gerir töluvert af áhugaverðum könnunum og rannsóknum og nýlega kom út skýrsla um fjölbreytni í stjórnum og stjórnun fyrirtækja. Það að fá fleiri einstaklinga á vinnumarkaðinn er jákvætt fyrir hagkerfið. Ein af auðlindum hvers lands er mannauður. Ef þú ert bara að nota helminginn af þessum auði ertu ekki að nota hann eins vel og hægt er að gera. Það segir sig sjálft. Í skýrslunni er bent á að bein og skýr tengsl eru á milli landsframleiðslu á mann í hverju landi og því hversu almenn atvinnuþátttaka kvenna er.“

Hún segir að í grunninn snýst þetta um að finna, rækta og halda í besta mögulega fólkið. „Með því að hafa úrtakið – heildarhópinn – sem stærstan er hægt að finna fleiri slíkar manneskjur. Það gerirðu ekki með því að horfa framhjá helmingi þjóðarinnar. Ef þú ert að leita að afburðamanneskjum í stjórnunarstöður færðu bestu niðurstöðuna með því að leita í sem stærstum hópi fólks.“

Ítarlegt viðtal við Margréti er að finna í nýjasta blaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.