Fyrirtækið Steinsnar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta eftir úrskurð þess efnis frá Héraðsdómi Vesturlands frá 5. október sl. Fyrirtækið er í eigu Steinars Bergs Ísleifssonar, en engin starfsemi hefur verið í félaginu frá árinu 2010. Er greint frá þessu í Skessuhorni.

Þar segir að eignir félagsins séu fasteignir, sem hýsa starfsemi ferðaþjónustunnar í Fossatúni, en Steinar segir að fljótlega eftir hrunið 2008 hafi eigendur ákveðið að færa rekstur ferðaþjónustunnar, sem þar til hafði verið í Steinsnari, í nýtt félag, Fossatún ehf. Það félag leigir svo fasteignirnar af Steinsnari.

Steinar Berg var mjög lengi lykilmaður í íslensku tónlistarlífi, en hann átti m.a. hljómplötuútgáfuna Steina hf., sem gaf út margar af perlum íslenskrar popptónlistar. Stofnað var nýtt fyrirtæki á rústum Steina, Spor ehf., árið 1993 og svo fór að Skífan keypti það fyrirtæki nokkrum árum síðar.

Samskiptin við bankann óskiljanleg

Í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið, sem birtist í september 2003, segir Steinar frá því að eftir samrunann við Skífuna hafi hann haldið áfram að vinna hjá því fyrirtæki, en samskiptin við eigendur og yfirmenn hafi verið stirð. Steininn hafi tekið úr þegar ákveðið var að hætta alfarið útflutningi á tónlist, en slíkur útflutningur var á könnu Steinars.

Árið 2001 keypti Steinar jörðina Fossatún í Borgarfirði og hefur síðan þá rekið þar ferðamannaþjónustu. Í samtali við Skessuhorn segir Steinar að samskiptin við Arion banka, sem sé eini kröfuhafi Steinsnars, hafi verið óskiljanleg og að sú leið sem bankinn hefur valið, þ.e. að krefjast skipta á Steinsnari, sé ekki vænleg.