„Hugmyndin gekk ekki upp eins og oft gengur með nýsköpunarfyrirtæki og því ákváðum við að fjármagna ekki fyrirtækið lengur,“ segir Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, en hugbúnaðarfyrirtækið Grapewire var á dögunum úrskurðað gjaldþrota. Aðrir hluthafar fyrirtækisins voru sömuleiðis á sömu skoðun.

Helga Valfells
Helga Valfells
© BIG (VB MYND/BIG)

Fyrirtækið þróaði vefsölulausnir fyrir tónlistariðnað og fjarskiptafyrirtæki. Tónlistarþjónusta sem Grapewire bjó til fyrir Símann undir heitinu „Bestu lögin“ hlaut Íslensku vefverðlaunin sem Besti afþreyingar- og fréttavefurinn í fyrra. Sykurmolinn og borgarfulltrúinn Einar Örn Benediktsson stofnaði Grapewire árið 2004.

Hluthafar fyrirtækisins voru 19 talsins. Þar á meðal átti Nýsköpunarsjóðurinn 25% hlut í lok árs 2010. Einar átti samkvæmt uppgjöri þess árs 11%, listaverkasafnarinn Francesca Habsburg-Lothringen var skrifuð fyrir 10% og Damon Albarn, söngvari bresku hljómsveitarinnar Blur, var skrifaður fyrir 2%.

Fyrirtækið tapaði 80 milljónum króna árið 2010 og bættist það við 34 milljóna tap frá árinu á undan. Í lok ársins var eigið fé Grapewire neikvætt um 45 milljónir króna. Eignir í lok árs 2010 námu 16,7 milljónum króna. Skuldir á móti námu 61,7 milljónum króna. Ekki liggur fyrir hverjar kröfur í þrotabúið en stutt er síðan kallað var eftir þeim. Skiptafundur er auglýstur 7. desember næstkomandi.