Íslenska sprotafyrirtækið Mobilitus er í hópi átta fyrirtækja sem valin voru til að taka þátt í þriðju atrennu hjá Portland Seed Fund, sem aðstoðar sprotafyrirtæki við fjármögnun, markaðssetningu og þróun í Portland.

Mobilitus er í eigu Helgu Waage og Þórarins Stefánssonar og sérhæfir það sig í lausnum fyrir vefi sem birtast í farsímum, töflum og tölvum og aðlaga sig sjálfkrafa stærð og getu tækisins sem birtir þá.

Fram kemur í tilkynningu frá Mobilitus, að þau Þórarinn og Helga hafi undanfarið unnið að því að sölu- og þjónustuskrifstofu í Bandaríkjunum og sé Portland í Oregon-ríki bækistöðvar fyrirtækisins.

„Við unnum að því síðastliðinn vetur að kynna okkur fyrir mögulegum samstarfsaðilum og þetta er árangur af því starfi. Við erum fyrsta erlenda fyrirtækið sem er tekið inn í þetta verkefni svo þetta er talsverð viðurkenning á þeim framtíðarplönum sem við höfum lagt grunninn að,“ er haft eftir Helgu í tilkynningunni.

Íslensk tækni í bandaríska boltanum

Þá kemur fram að mánuðurinn hafi verið viðburðaríkur í sögu Mobilitus en bandaríska fótboltaliðið Tampa Bay Buccaneers býður nú áhorfendum að nota farsíma sem aðgöngumiða að heimaleikjum sínum með lausn sem þróuð er og rekin af Mobilitus. Þeir 90 þúsund áhorfendur sem mæta reglulega á leiki félagsins geti nú losnað við að prenta út miðana sína og láta bara skanna þá beint af símaskjánum við inngang leikvangsins. Þá segir að önnur lið í NFL-deildinni muni fylgja í kjölfarið auk þess sem NBA og NHL deildirnar hafi sýnt verkefninu áhuga.