Íslenskir neytendur verða sífellt meðvitaðri um þær vörur sem þeir kaupa, þvert á það sem áður var. Það er mikilvægt að fyrirtæki geri sér grein fyrir þessari þróun og verði á undan neytendum í vegferðinni en neytendur geta annars verið fljótir að refsa eins og sannast hefur í tilfelli Brúneggja. Þau þurfi einnig að vera fljót að beina umræðu í jákvæðari farvegi. Þetta segir Dr. Valdimar Sigurðsson, prófessor við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, en hann flutti á dögunum erindi á málstofu sem bar nafnið: Brún egg, spældir neytendur, dýravelferð og skyldur stjórnvalda.

Íslendingar dofnir og einsleitir neytendur

Valdimar segir íslenska neytendur í gegnum tíðina hafa verið dofna. „Það má segja að íslenska þjóðin hafi í gegnum árin verið frekar einsleit. Við erum vön því að allir séu svolítið svipaðir, fáir sem eru öðruvísi, fáir sem eru með mjög sterkar skoðanir. Þetta hefur hins vegar verið að breytast að undanförnu og við erum að verða fjölbreyttari og þar spila internetið og samfélagsmiðlar stórt hlutverk. Í dag má segja að engin fyrirtæki séu í raun óhult. Stóru fyrirtækin eins Kentucky Fried Chicken, H&M og Walmar  hafa fundið fyrir mætti samfélagsmiðla og það sama gildir um framleiðendur, veitingasala og smásala.

Íslenski neytandinn í dag er jafnframt orðinn kröfuharðari, hefur aukin tækifæri til að verða sér úti um upplýsingar og hafa í kjölfarið orðið til stærri hópar innan samfélagsins sem hafa mjög sterkar skoðanir á hinum ýmsu málefnum, hvort sem það er dýravernd, umhverfismál eða eitthvað annað,“ segir Valdimar.

Neytendur eru fljótir að refsa

Valdimar segir gríðarlega mikilvægt fyrir fyrirtæki að þau séu meðvituð um þróunina og fari á undan neytendum í þessum efnum enda séu þeir orðnir mjög duglegir og fljótir að refsa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.