Félög í eigu Vincent Tchenguiz hafa verið sett í greiðslustöðvun eftir að Bank of America Merrill Lynch fór fram á að lán yrðu endurgreidd. Félögin sem um ræðir eru Peverel Limited, Peverel Group Limited, Aztec Opco Developments og Aztec Acquisitions, að því er fram kemur á vefsíðu BBC. Financial Times greindi fyrst fjölmiðla frá í dag. Í frétt BBC segir að greiðslustöðvun hafi ekki áhrif á daglegan rekstur félaganna en þeirra stærst er Peverel.

Tchenguiz var handtekinn í síðustu viku ásamt bróður sínum Robert og sjö öðrum í tengslum við rannsókn efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar, SFO, á starfsemi Kaupþings fyrir hrun.

Í frétt Financial Times segir að Merrill Lynch krefjist þess að Peverel, eignarhaldsfélag Vincent Tchenguiz, endurgreiði lán að fjárhæð 125 milljónum punda. Stjórn félagsins ákvað fyrir helgi að fara fram á greiðslustöðvun. Viðræður um greiðslur af láninu hafa staðið yfir í rúmt ár. Í tilkynningu frá Vincent Tchenguiz til fjölmiðla segir hann að aðgerðir bankans séu bein afleiðing af handtökum SFO í síðustu viku og hann harmi ákvörðun bankans.

Starfsmenn Peverel eru um 4.300 talsins og starfa í ýmsum rekstri tengdum fasteignum og húsnæði. Félagið er stærsta sinnar tegundar í Bretlandi.