Eftir að meira en 70 konur sökuðu Harvey Weinstein, fyrrum stjórnarformann fyrirtækisins, um allt frá áreitni til nauðgunar, hefur stjórn fyrirtækisins reynt að bjarga því frá gjaldþroti en það virðist ekki ætla að takast.

„Weinstein fyrirtækið hefur reynt að selja eignir í von um að bjarga verðmætum og störfum,“ segir í yfirlýsingu fyrirtækisins. „Í dag kom í ljós að ekki náðust samningar um söluna.“ Segist stjórnin ekki hafa neina aðra kosti í stöðunni til að bjarga verðmætum fyrirtækisins heldur en gjaldþrotameðferð.

Hafði fyrirtækið verið nálægt því að ná samningum um sölu til fjárfestahóps á vegum Maria Contreras-Sweet, sem áður starfaði í stjórn Barack Obama Bandaríkjaforseta. Samkvæmt frétt Reuters um málið hefði samningurinn hljóðað upp á um 500 milljón dali, eða sem nemur 50,5 milljörðum króna.

Samningarnir fóru hins vegar út um þúfur þegar saksóknari New York ríkis stefndi fyrirækinu og Weinstein sjálfum vegna ásakananna.