Fyrirtækið Primex á Siglufirði hlaut Nýsköpunarverðlaun Íslands 2012. Verðlaunin voru afhent á Nýsköpunarþingi í morgun.

Primex framleiðir kítin og kítósan úr rækjuskel. Kítosan er verðmætt efni sem sérstakega er eftirsótt á erlendum mörkuðum. Ástæða þess er að efnið hefur eftirsótta eiginleika til framleiðslu á fæðubótarefnum, lausasölulyfjum, sárameðferðarefnum og snyrtivörum auk þess að vera notað í vínframleiðslu og nú í auknum mæli í matvæli.

Í tilkynningu vegna verðlaunanna segir að fyrirtækið hafi frá upphafi framleiðslu árið 1999 verið í góðri markaðsstöðu í Bandaríkjunum, Asíu og Evrópu auk þess sem fyrirtækið hóf nýlega sölu inn á markað í Rússlandi. Upphaflega hugmyndin að fyrirtækinu sneri að því hvernig auka mætti nýtingu á sjávarafurðum með því að nýta úrgang sem hráefni. Rækjuskel hafði árum saman verið hent í sjóinn en er nú nýtt í þessa framleiðslu. Það voru fyrirtækin Rammi á Siglufirði og SR_mjöl sem stofnuðu fyrirtækið og reistu verksmiðju á Siglufirði.