Á annað hundrað gesta sóttu hádegisverðarfyrirlestur ÍMARK á Hilton Nordica í síðustu viku þar sem Maxine Clark, stofnandi Build-A-Bear Workshop, fjallaði um hvernig á að byggja upp og reka fyrirtæki með hjartanu.

Maxine, sem er einn af frumkvöðlum smásölumarkaðarins, útskýrði hvernig hún byggði upp vörumerkið sitt, Build-A-Bear Workshop, úr því að vera með eina búð í St. Louis 1997 yfir í 400 verslanir í yfir 14 löndum. Í verslunum Build-A-Bear Workshop fá viðskiptavinir að búa til sína eigin bangsa. ,,Fylgjum okkar eigin ástríðu og hugmyndaauðgi í vinnunni og verum óhrædd að gera hlutina öðruvísi ef við teljum það rétt. Byggjum upp og rekum fyrirtæki með hjartanu,“ sagði Maxine meðal annars á fyrirlestrinum.

Hún hvatti til þess að fullorðna fólkið hlustaði á börnin því því hægt væri að læra margt af þeim. ,,Þau fá frábærar hugmyndir og eru óhrædd við að framkvæma hlutina. Ég hvet öll börn til að láta drauma sína rætast,“ sagði Maxine enn fremur. Jón Björnsson, forstjóri ORF Líftækni, og Guðrún Tinna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og annar eigenda Ígló&Indí, fjölluðu einnig um rekstur og markaðssetningu fyrirtækja sinna sem bæði hafa haslað sér völl á erlendri grundu með öflugu markaðsstarfi.