Tryggingasjóður innistæðueigenda í Bandaríkjunum tók yfir Silicon Valley Bank (SVB) í síðustu viku og tryggði allar innistæður bankans að virði 175 milljarða dala, í kjölfar lagabreytinga fjármálaráðuneytisins. Spurður að því hvort það sé skynsamleg ákvörðun að tryggja allar innistæður SVB svarar Jón því neitandi.

„Þessi peningur gæti farið í nýjan spítala, skattalækkanir eða annað slíkt sem er öllum til góðs. Þess í stað fer peningurinn í að hjálpa mjög ríkum fyrirtækjum með mjög ríka eigendur. Í einföldu máli er þetta flutningur fjármagns frá hinum venjulega manni til mjög auðugs fólks. Það vakna upp siðferðislegar spurningar um það hvort í lagi sé að gera þetta.“

Hann segir að fyrirtæki með innstæður hjá bönkum á borð við SVB séu rekin af atvinnumönnum. Þau hefðu getað framkvæmt áreiðanleikakannanir á bankanum og komist að því að eignasafnið væri eitthvað bogið. Innstæðutryggingar eigi fyrst og fremst að hjálpa venjulegu fólki sem hefur ekki burði til að fara í umfangsmikið áhættumat á bönkum.

„Fyrirtæki með stórar upphæðir ættu að geta greint áhættuna fyrirfram. Hver sem las bækur bankans hefði getað komist að því að það var stór áhættuþáttur í rekstrinum. Það að þessi fyrirtæki kusu að kanna þetta ekki nægilega vel segir mér að þau eigi sjálf að bera ábyrgð á sínum eigin ákvörðunum, en ekki skattgreiðendur.“

Erfitt pólitískt fyrir Biden

Bandarísk stjórnvöld hafa reynt að forðast það að nota orðið „bailout“ utan um aðgerðirnar. Jón segir að ákvörðunin um að tryggja allar innstæður SVB gæti reynst erfið pólitískt fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta, sérstaklega í ljósi þess að forsetakosningar eru á næsta ári.

„Björgunaraðgerðir (e. bailouts) hafa verið óvinsælar í Bandaríkjunum síðan þær voru framkvæmdar árið 2008. Þetta útspil hans gæti haft áhrif á hans stöðu og kosningamöguleika 2024. Það hjálpar honum ekki að hann var varaforseti þegar bönkunum var bjargað síðast. Þá lofaði ríkisstjórnin því að það yrðu ekki aðrar björgunaraðgerðir. Þetta verður allt dregið upp og þetta er strax orðinn mikill pólitískur fótbolti vestanhafs. Mig grunar að Biden muni sjá eftir því að gera þetta.“

Ákvörðun bandrískra stjórnvalda um að tryggja allar innistæður SVB gæti reynst erfið pólitískt fyrir sitjandi Bandaríkjaforseta.
© epa (epa)

Nánar er fjallað um fall Silicon Valley Bank í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í fyrramálið.