Í frumvörpum að fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að fasteignaskattar lækki til að koma til móts við miklar hækkanir á fasteignamati. Lækkanirnar ná þó nær eingöngu til eigenda íbúðarhúsnæðis, en því ber að halda til haga að á næsta ári verða sveitarstjórnarkosningar. Þannig hyggjast tíu af tólf stærstu sveitarfélögum landsins lækka fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði, en aðeins þrjú ætla að lækka álögur á atvinnuhúsnæði.

Hafnarfjarðarbær lækkar fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði hvað mest, eða úr 1,65% af fasteignamati í 1,57%. Akraneskaupstaður lækkar úr 1,65% í 1,62%. Þá ætlar Kópavogsbær að lækka álagningarhlutfallið úr 1,62% í 1,60%. Fasteignaskattur er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaga á eftir útsvari af launatekjum og getur að hámarki verið 1,65% af fasteignamati.

Dæmi eru um að minni sveitarfélög á borð við Stykkishólm muni einnig lækka fasteignagjöld. Þá eru einnig dæmi um að sveitarfélög muni lækka skatta og gjöld sem snerta bæði eigendur íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis, þó án þess að lækka fasteignaskattinn. Þannig áformar Garðabær að lækka vatnsskattinn og holræsisgjaldið og Mosfellsbær mun lækka fráveitu- og vatnsgjald.

Félag atvinnurekenda hefur gagnrýnt framlögð frumvörp að fjárhagsáætlunum fyrir að sýna ekki fyrirtækjunum sömu sanngirni og heimilunum. Enginn rökstuðningur liggi að baki mismunandi þróun á skattbyrði og ekki heldur neinir kostnaðarútreikningar. Óbreytt álagnignarhlutfall sé ígildi skattahækkunar á fyrirtæki í landinu.

Byggir á aðstöðumun

Stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, hyggst halda fasteignagjöldum á fyrirtæki í hámarki. Á hinn bóginn lækkar álagningarhlutfall fasteignaskatts á heimilin í landinu. S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs Reykjavíkur, rökstyður þá ákvörðun borgarráðs út frá því að atvinnulífið sé vel í stakk búið til að standa undir óbreyttu álagningarhlutfalli.

„Við erum fyrst og fremst að hugsa um að minnka byrðina á fólk sem býr í eigin húsnæði. Efnahagslífið er nokkuð sterkt og það virðist vera ágætur „bisness“ hjá fyrirtækjum í landinu. Við teljum einfaldlega að atvinnulífið sé í stakk búið til að greiða það fasteignagjald sem myndast af verðmæti þeirra eigna og í einhverjum tilvikum þeirri veltu sem starfsemin er í. Atvinnulífið hefur betri forsendur til að standa undir fasteignagjöldum heldur en íbúðamarkaðurinn, sem hefur upplifað miklar verðhækkanir,“ segir Björn.

Fyrirtæki í Reykjavík hafa skoðað grundvöll málsóknar gegn borginni til að reyna á ýmsa þætti útreiknings og álagningar fasteignagjalda. Björn segir Reykjavíkurborg ekki sjá neinar forsendur fyrir slíkri málshöfðun. Tekið verði á því eins og öðrum velferðarmálum.

Íbúarnir koma fyrst

Akureyri, sem er fjórða stærsta sveitarfélag landsins, hyggst lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði en ekki atvinnuhúsnæði. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir að ekki sé mikið svigrúm til staðar í rekstri bæjarins til að lækka álögur á bæði heimili og fyrirtæki.

„Rekstur aðalsjóðs hefur verið í járnum og svigrúmið er einfaldlega ekki mikið til að lækka tekjustofna,“ segir Guðmundur, en rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs Akureyrarbæjar var neikvæð um tæplega 340 milljónir króna á síðasta ári.

„Afkoman hefur hins vegar verið að batna og með því að lækka álögur á íbúðarhúsnæði erum við að taka fyrstu skrefin í að lækka fasteignaskatta almennt. Við viljum hins vegar fara varlega í það. Íbúarnir koma fyrst og ef rekstur aðalsjóðs heldur áfram að batna þá má búast við því að við tökum frekari skref til lækkunar fasteignaskatts.“

Garðabær áformar einnig að lækka eingöngu álagningu á íbúðarhúsnæði, en 1,5 milljarða króna afgangur var á A-hluta sveitarsjóðs Garðabæjar í fyrra.

„Hækkun fasteignamats og fasteignagjalds er ekki svo mikil á atvinnuhúsnæði að það fari fyrir hagsældina og kaupmáttinn almennt. Fasteignagjöldin eru einu tekjurnar sem við höfum af fyrirtækjunum og okkur finnst eðlilegt að þau taki þátt í samneyslunni,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .