Iðnaðarstarfsemi víkur af Ártúnshöfða og úr Elliðaárvogi miðað við núgildandi aðalskipulag Reykjavíkur og hugmyndir sem kynntar hafa verið að undanförnu. Gert er ráð fyrir að stórt svæði við Elliðaárvog verði einungis skilgreint sem íbúabyggð. Annað svæði á Ártúnshöfða verður skilgreint sem blönduð byggð.

„Það má segja að atvinnustarfsemi verði þarna víkjandi, og þarna er náttúrulega ýmiss iðnaður sem í framtíðinni mun ekki samrýmast því,“ segir Einar I. Halldórsson hjá eigna- og atvinnuþróun Reykjavíkurborgar um svæðið við Elliðaárvog og á Ártúnshöfða. Hann staðfestir að ýmis fyrirtæki muni þurfa að víkja af svæðinu. Ekki sé hægt að fullyrða hvenær uppbygging muni hefjast, en deiliskipulag fyrir hluta svæðisins geti þó verið tilbúið á næsta ári.

Áður en uppbygging geti hafist þurfi þó að ná samningum við lóðarhafa. Borgin hafi úrræði samkvæmt skipulagslögum til að þvinga fram breytta notkun á lóðum, en ekkert bendi til þess að svo stöddu að þeim úrræðum verði beitt.

Milljarða kostnaður fyrir borgina

Malbikunarstöðin Höfði er eitt þeirra fyrirtækja sem munu þurfa að víkja af Ártúnshöfða, en fyrirtækið er alfarið í eigu Reykjavíkurborgar. Halldór Torfason, framkvæmdastjóri malbikunarstöðvarinnar, segir ekkert óeðlilegt við það að iðnaðarfyrirtæki þurfi að flytja starfsemi sína eftir því sem byggðin þenst út. Þó sé æskilegt að kaupendur og seljendur efnis séu staðsettir nálægt hvor öðrum. "Stærsta óvissan hjá okkur í sambandi við þetta er að við vitum ekki hvert við eigum að fara á þessari stundu. Við erum með starfsleyfi til 1. febrúar 2019, það er eiginlega í kvöld," segir Halldór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .