Viðskiptaráð segir augljóst að ef nýtt frumvarp um rafræna fyrirtækjaskrá verði að lögum muni það bæði auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar sem og að atvinnulífið muni hagnast af skránni.

Leggur því Viðskiptaráð til að frumvarpið nái fram að ganga í umsögn sinni um það en tilkoma rafrænnrar fyrirtækjaskrá mun fela í sér töluverða einföldun og hagræði við stofnun og skráningu fyrirtækja að mati ráðsins.

Þurfi bara að skoða 2 í stað 160 atriða

Í frumvarpinu segir að með innleiðingu skrárinnar verði hægt að skrá félög og breytingar á þeim samdægurs í stað þess að það taki sjö til tíu virka daga eins og nú er.

Jafnframt mun sérfræðingur ríkisskattstjóra einungis þurfa að lesa yfir tvö atriði í stað 160 atriða þegar einkahlutafélög eru stofnuð, vegna þess að notuð verða stofnskjöl ríkisskattstjóra.

Vonast ráðið eftir að áætlanir um að rafræna skráningin verði komin í gagnið á síðari hluta þessa árs gangi eftir svo hagræðið sem af henni hljótist muni koma sem allra fyrst til nota.