Pétur Bergþór Arason, sérfræðingur í stjórnun – sem sagt var frá í gær að teldi margar útbreiddar stjórnunaraðferðir vera úreltar – segir fólk stundum breytast þegar það fer inn í fyrirtæki, skriffinnskan eigi það til að taka yfir, sem geti haft mjög slæmar afleiðingar fyrir reksturinn. „Úti í samfélaginu erum við rosalega dýnamísk og til í allt og viljum ekki fylgja einhverjum rosalega föstum reglum. Við vitum auðvitað að það eru lög og reglur, en það er mjög rúmur rammi og við ferðumst í þessu samfélagi rosalega frjáls. En um leið og við erum búin að stimpla okkur inn í fyrirtækið okkar þá breytumst við og förum bæði að gera og biðja aðra um að gera allskonar skrýtna hluti, sem við köllum bara skriffinnsku, sem í lok dags þrengir að öllu sem heitir sköpunargáfa, innsæi og starfsánægja. Það getur drepið heilu fyrirtækin.“

Þetta virðist þó öðru fremur hrjá stór fyrirtæki, en það sé ekki náttúrulögmál. „Það er alveg sama fólkið sem vinnur hjá stóra og litla fyrirtækinu, alveg sama hugvitið. Munurinn liggur hins vegar í því hvernig við hugsum um og framkvæmum stjórnun. Við þurfum að breyta menningunni í stóru fyrirtækjunum til þess að leysa úr læðingi allt þetta hugvit og alla þessa sköpunargáfu, ástríðu og innsæi sem býr í hverjum einasta starfsmanni. Stjórnendur eru oft að gera skipuritin allt of flókin, búa til alls konar stjórnendalög sem gera ekkert annað en að auka miðstýringu og taka valdið frá starfsmanninum, sem þýðir að hann missir áhugann á því sem verið er að gera. Það er búið að rannsaka þetta alveg í döðlur, það eru svona 30% sem eru ánægð, önnur 30% sem eru á báðum áttum og restin er óánægð. Þetta þýðir í kringum 70% sem eru ekki að leggja sig alla fram í vinnunni. Þarna á gríðarleg sóun sér stað, 70% af vinnuaflinu eru ekki að skila því sem þau gætu skilað.“

Þegar allt kemur til alls segir Pétur aðalmálið það að fyrirtæki og stofnanir séu í mörgum tilfellum búin að missa tengslin við viðskiptavini og skjólstæðinga. „Við sjáum þetta sem neytendur, en við sjáum þetta líka oft inni í fyrirtækjunum okkar, að við berjumst í bökkum og samkeppnin er að ná af okkur viðskiptavinunum. Síðan er hitt, að við erum ekki að fá það út úr starfsmönnunum sem við mögulega gætum af því að við erum búin að læsa þá inni í fangelsi skriffinnskumiðstýringar flókinna lausna, upplýsingatækni sem er ekki að gagnast þeim og svo framvegis.“ segir Pétur að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .