Fyrirtaka í er í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, í dag en hann krefst þess að rannsókn sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins verði hætt.

Þá krefst Baldur þess einnig að kyrrsetning eigna hans, á grundvelli ákvörðunar sýslumanns, verði felld úr gildi. Byggir krafa Baldurs, um að rannsókninni verði hætt, ekki síst á því að Ffjármálaeftirlitið (FME) hafi tilkynnt honum um það í maí á þessu ári að ekki yrði aðhafst frekar gegn honum. Málin eru á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.

Rannsóknin, sem FME hefur vísað til sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins, snýr að sölu Baldurs á hlutabréfum fyrir á annað hundrað milljónir króna í Landsbankanum í september í fyrra og þá hvort Baldur hafi búið yfir innherjaupplýsingum í skilningi laganna á þeim tíma sem viðskiptin fóru fram.

Í maí tilkynnti FME Baldri að rannsókn málsins væri lokið, eins og áður sagði, og að ekki væri talið tilefni til þess að aðhafast frekar í málinu. Eftir að þessum skilaboðum var komið til Baldurs hélt rannsókn FME áfram, á grundvelli nýrra gagna, sem að lokum leiddi til þess að FME vísaði málinu til embættis sérstaks saksóknara 9. júlí á þessu ári. Embætti sérstaks saksóknara óskaði eftir því að eignir Baldurs yrðu kyrrsettar 11. nóvember sl. í tengslum við rannsókn málsins, sem enn stendur yfir.