Tvö fyrirtæki sem starfa á Íslandi eru á lista yfir hundrað fremstu fyrirtæki heimsins á sviði sjálfbærrar þróunar, Alcoa og Alcan. Listinn var birtur á föstudaginn á heimsviðskipta-ráðstefnu World Economic Forum í Davos í Sviss. Frá þessu er greint í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkur listi er tekinn saman. Stefnt er að því að listinn verði birtur árlega héðan í frá en til að fyrirtæki komist á listann þurfa þau að hafa í heild jákvæð áhrif á samfélag sitt og umhverfi.

Þrjú fyrirtæki þóttu skara fram úr meðal fyrirtækjanna hundrað og var þeirra sérstaklega getið fyrir framúrskarandi árangur. Fyrirtækin þrjú eru Toyota, Alcoa og BP. Toyota var getið vegna þróunar á Prius bílnum. Alcoa vegna áforma um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vegna áherslu fyrirtækisins á að hvetja til notkunar áls í samgöngutækjum svo minnka megi orkunotkun. BP komst meðal annars í hóp þriggja fremstu fyrirtækja heimsins á sviði sjálfbærrar þróunar vegna aðgerða til betri nýtingar auðlinda og þátttöku í nýtingu á sólarorku.

Á listanum voru 32 bresk fyrirtæki, 20 bandarísk, 9 þýsk og 7 sænsk.

Byggt á frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.