Svo virðist sem stærstu fjármálafyrirtækin á Wall Street séu sjálfviljug að breyta og betrumbæta launa- og bónuskerfi æðstu stjórnenda sinna.

Þetta segir Kenneth Feinberg, sem sinnt hefur starfi svokallaðs launakeisara fyrir hönd bandarísku ríkisstjórnarinnar undanfarna mánuði. Feinberg var ráðinn af ríkisstjórn Barack Obama til að hafa umsjón og eftirlit með því að fyrirtæki, þá helst fjármálafyrirtæki, sem fengið hefðu neyðarlán frá hinu opinbera væru ekki að greiða stjórnendum og millistjórnendum háa bónusa á meðan þeir ættu enn óuppgert við ríkið.

Í samtali við Reuters fréttastofuna í dag segir Feinberg að fyrirtækin séu sjálf að setja sér reglur um bónusgreiðslur og það án nokkurra afskipta af hálfu hins opinbera. Feinberg sagði að fyrirtæki sem ekki hefðu fengið neyðarlán eða annars konar fyrirgreiðslu frá bandarískum yfirvöldum væru líka að setja sér strangar reglur um bónusgreiðslur. Enn eru fimm fjármálafyrirtæki sem lúta eftirliti launakeisarans.

Feinberg bætti því þó við að síðan væri bara spurning um hvort að reglurnar væru til langs tíma eða bara til að svara nýlegri gagnrýni á háar bónusgreiðslur í fjármála- og tryggingageiranum.

Feinberg sagði að algengt væri nú að fyrirtæki gæfu stjórnendum sínum hlutdeild í hagnaði í formi hlutabréfa eða forkaupsréttar. Þannig væri verið að binda bónusgreiðslur við árangur fyrirtækja en um leið að horft væri frá því að greiða út miklar peningaupphæðir.