Fyrirtækinu Netia Mobile, sem er félag undir forystu Björgólfs Thors Björgólfssonar og pólska símafyrirtækisins Netia, var í dag úthlutað UMTS fjarskiptaleyfi í Pólandi. Er það fjórða leyfið sem veitt er fyrir þriðju kynslóð farsíma þar í landi. Aðrir umsækjendur um leyfið voru pólsku símafyrirtækin Era(T-Mobile), Polkomtel(Voda/TDC) og Idea(TPSA), auk alþjóðafyrirtækjanna Hutchison og Korean Group(Samsung).

Einnig tilkynntu fjarskiptayfirvöld í Pólandi að engum umsækjanda hefði verið úthlutað GSM 1800 farsímaleyfi sem auglýst var á sama tíma og UMTS leyfið, þar sem enginn uppfyllti öll skílyrðin segir í tilkynningu frá Björgólfi Thor.

Þar segir einnig að nærri 60% Pólverja séu nú skráðir fyrir farsímum og gera áætlanir ráð fyrir því að um 80% þjóðarinnar eða um 30 milljónir manna, tali í farsíma í lok ársins 2007.

Áform Netia Mobile um uppbyggingu fjarskiptakerfa og þjónustu verða kynnt síðar.

Netia Mobile er þriðja símafyrirtækið þar sem Björgólfur Thor Björgólfsson er kjölfestufjárfestir. Hann fer einnig fyrir hópi eigenda í BTC símafyrirtækimu í Búlgaríu og CRa í Tékklandi.