BN Boligkreditt, sem er dótturfélag Bnbank, sem er í eigu Glitnis [ GLB ], hefur frestað útgáfu á fyrstu sérvörðu skuldabréfum (e. Covered bond) í Noregi vegna óstöðugleika á mörkuðum. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Sala á bréfunum, sem eru til fimm ára, hófst á mánudaginn, en til stóð að selja fyrir tæplega 100 milljarða króna. Tilkynnt var svo um frestun á sölu bréfanna á þriðjudag þegar evrópskar skuldaafleiðuvísitölur náðu sögulegu hámarki.

Barclays, Danske Bank og UBS fjárfestingarbanki höfðu sameiginlega umsjón með útgáfunni og segir ónefndur talsmaður eins þeirra að bréfin komi á markað að nýju þegar stöðugleiki á mörkuðum næst að nýju og að málið sé í skoðun frá degi til dags.

Matsfyrirtækið Moody’s hafði gefið bréfunum tímabundna einkun upp á AAA.