FL Group hefur áhuga á að koma manni í stjórn finnska flugfélagsins Finnair og Hannes Smárason, forstjóri félagsins, telur að finnska ríkið eigi að selja hlut sinn í fyrirtækinu. Þetta kemur fram í frétt finnska viðskiptablaðsins Kauppalehti.

Eignarhlutur FL Group í Finnair jókst í 22,4% þegar fyrirtækið seldi 22,6% hlut sinn í Straumi-Burðarási í síðustu viku og fékk að hluta til greitt með bréfum í finnska flugfélaginu. Fyrir átti FL Group um 12% hlut í Finniar, en finnska ríkið er stærsti hluthafinn með 55,8% eignarhlut.

"Sæti í stjórn Finnair er góð leið til að fylgjast með Finnair, sem er alþjóðlegt flugfélag með arðbærar flugleiðir til Asíu," sagði Hannes í samtali við Kauppalehti.

"Ég tel að finnska ríkið ætti að selja hlut sinn í Finnair. Nú til dags er svona stór eignarhluti í eigu ríkisins umdeildur, sérstaklega þar sem Finnair er skráð félag. Áhugi fjárfesta á Finnair myndi aukast ef ríkið minnkaði eignarhlutinn," sagði Hannes.