Bæði Sláturfélag Suðurlands og Fóðurblandan hafa fengið felldar niður skuldir í viðræðum sínum við Arion banka. Í nýjasta ársreikningi Sláturfélagsins (SS) kemur fram að verðbætur og gengistap lána að andvirði 565 milljónir króna hafa verið felldar niður.  Þetta kemur fram í skýringum með reikningnum en er ekki dregið sérstaklega fram í skýrslu stjórnar.

Hagnaður af rekstri SS í fyrra var 412 milljónir króna, sem þýðir að tap hefði verið á rekstrinum hefði ekki komið til niðurfellingar verðbóta og gengistaps. Steinþór Skúlason, forstjóri SS, bendir á að engin viðskiptavild er skráð í reikninga félagsins. Eigið fé SS samstæðunnar nam tæpum 1,4 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfallið 22,5% í árslok 2009.

Í Morgunblaðinu í dag kemur svo fram að skuldir Fóðurblöndunnar hafi verið lækkaðar um þrjá milljarða. Nú séu þær um tveir milljarðar króna en fyrirtækið hafi skuldað rúmlega 5,1 milljarð í árslok 2008. Jafnframt kemur fram að eigendur hafi lagt fyrirtækinu til 600 milljónir króna í aukið hlutafé. Stærsti eigandi Fóðurblöndunnar er Kaupfélag Skagfirðinga með yfir 70% hlut og Auðhumla með um 18% hlut samkvæmt Morgunblaðinu.