Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Ölfuss, segir að áform um að reisa kísilverksmiðju í Þorlákshöfn séu komin vel á veg. „Ég held að það sé nokkuð ljóst að það er mikil alvara í hlutunum.”   Stofnað hefur verið félag sem heitir ThorSil um þetta verkefni en á bak við það eru bandarísk og kanadísk fyrirtæki í samstarfi við Strokk Energy sem er m.a. eignaraðili að aflþynnuverksmiðjunni í Eyjafirði. Munu bandarísku og kanadísku fyrirtækin vera í hópi stærstu kísilvöruframleiðenda í heimi.   „Þetta er heitasta verkefnið sem komið hefur upp lengi, en ég held að það hafi einir sjö aðilar komið frá áramótum með ýmsar hugmyndir um rekstur. Það hefur því kviknað meiri áhugi nú eftir áramótin.”   Ólafur Áki segir að fyrirhugað sé að reisa verksmiðjuna í tveim áföngum. Hefja eigi framkvæmdir á næsta ári og fyrsti áfangi eigi að varða tilbúinn 2013.

„Það sem að okkur snýr er alveg klárt. Þeir geta fengið 15 hektara lóð fyrir fyrsta áfanga og 15 hektara til viðbótar fyrir síðari áfanga.”