Í frumvarpi sem Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, hyggst leggja fram á Alþingi í dag er lagt til að öllum fyrirtækjum, félögum og stofnunum sem eru að minnsta kosti að helmingi í eigu íslenska ríkisins verði gert skylt að upplýsa um allar afskriftir skulda lántakenda sinna.

Í greinargerð segir að markmið frumvarpsins sé að tryggja að engar óeðlilegar eða óvenjulegar afskriftir séu gerðar í skjóli leyndar.

„Gagnsæi er grundvallaratriði opinnar stjórnsýslu og við þær óvenjulegu aðstæður sem íslenskur almenningur býr nú við er nauðsynlegt að engu verði leynt til að unnt verði að skapa á nýjan leik traust í samfélaginu," segir enn fremur í greinargerð frumvarpsins, sem sent hefur verið fjölmiðlum.