Fyrirtækið X-Orka ehf. er þessa dagana að setja upp bækistöðvar sínar á Húsavík. X-Orka hefur aðstöðu til að byrja með á 3ju hæð á Garðarsbraut 5. Tilgangur X-Orku er markaðssetning og sala á þekkingu og búnaði sem byggir á þessari Kalina tækni til framleiðslu á raforkuverum og rafstöðvum. Markaðssvæðið er Evrópa og Suður-Ameríka, en þar hefur fyrirtækið tryggt sér leyfi og rétt á sölu tækninnar.

Eins og margir vita hefur Orkuveita Húsavíkur framleitt undanfarin ár rafmagn í Orkustöðinni á Hrísmóum. Sérstök tækni, sem kennd er við Kalina, hefur verið nýtt til að framleiða rafmagn úr "yfirheitu" vatni. Við þróun og prófanir á þessari tækni hefur orðið til mikil þekking og reynsla.

Stærsti hluthafi X-Orku er verkfræðistofan VGK en meðal annarra hluthafa eru Orkuveita Húsavíkur og Tækniþing. Magnús Gehringer, viðskiptafræðingur, var ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá 1. júlí.

Aðstandendur X-Orku telja orkumarkaði í heiminum vera að opnast. Aukin áhersla er á umhverfissjónarmið og stöðugt hækkandi olíuverð skapar gríðarlega markaðsmöguleika fyrir búnað sem X-Orka hannar og selur.

Aðsetur X-Orku eru á Húsavík. Þar mun fyrirtækið, í samstarfi við starfandi Kalina-rafstöð Orkuveitu Húsavíkur, háskóla, fyrirtæki og fleiri aðila starfrækja menntunar- og þjálfunarmiðstöð. Gríðarleg þekking og reynsla á sviði raforkuframleiðslu leynast í bakhjörlum X-Orku, hæfu starfsfólki, samstarfi við heimsþekkta orku- og búnaðarframleiðendur auk leyfa til sölu Kalina tækninnar..