Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands telur að hættan sem efnahag einkageirans stafar af gengissveiflum kunni að vera minni en áður var talið. Þórarinn segir að þótt 70% skulda fyrirtækja séu í erlendri mynt sé rúmlega helmingur fyrirtækja eingöngu með lán í krónum. Mesta skuldsetningin í erlendum gjaldmiðlum sé í eignarhaldsfélögum.

Þetta kemur fram í göngum Þórarins sem hann kynnti fyrir starfsmönnum fjármálafyrirtækja í síðustu viku. Fór hann yfir bakgrunn síðustu vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabankans.

Veiking krónunnar kemur sérstaklega illa við heimili og fyrirtæki sem skulda í erlendri mynt. Veikist krónan hækka erlendar skuldir mælt í krónum. Því er sagt að efnhagur þessara aðila sé viðkvæmur fyrir gengissveiflum.

Þórarinn segir að endurskipulagning efnahags einkageirans, sem nú standi yfir, ætti að draga úr þessari áhættu enn frekar. Stuttur líftími og skertur aðgangur að erlendu lánsfé auki væntanlega áhrifamátt peningastefnunnar þegar hlutfall gengisbundinna lána fer að minnka.

Þórarinn segir jafnframt að fyrsta skrefið í afnámi hafta geri gengið næmara fyrir ákvörðunum í peningamálum og væntingum um þær.