Ævar Þorsteinsson, forstjóri vinnuvélainnf lyt jandans Kraftvéla, er í nánu sambandi við verktaka landsins. Hann segir lítið annað hægt að gera en að reyna að brosa framan í heiminn og vona það besta meðan starfsemi fyrirtækisins sé lömuð.

„Tannhjólin eru bara stopp og allir að bíða eftir einhverju. Þetta snerist hægt í allt sumar en nú er það bara stopp. Starfsfólkið er bara á netinu að leita að jákvæðum fréttum. Það er algjört flopp að vaxtalækkun skuli ekki enn vera komin til framkvæmda. Ég skil ekki hvar stíflan er á meðan aðrir seðlabankar taka ákvarðanir um lækkun á augabragði.“ Ævar segir að hávaxtastefnan hafi átt að gera tvennt: Annars vegar að laða til okkar erlenda fjárfesta og hins vegar að slá á þensluna. Nú komi erlendir fjárfestar ekki nálægt okkur og þenslan er engin. Samt sé haldið í háa vexti. Segist Ævar sammála því að lækka þurfi stýrivexti niður fyrir 10% til að fá hjól atvinnulífsins til að snúast að nýju.

Flokkaðir sem hryðjuverkamenn

„Þá höfum við algjörlega glatað öllu trausti erlendu bankanna. Við erum bæði flokkaðir sem hryðjuverkamenn og sem þriðjaflokksþjóð og komnir í hóp svörtustu Afríkuríkja.“ Ævar segir að birgjar erlendis taki því ekki annað í mál en staðgreiðslu, en það sé heldur ekki hægt að verða við því þar sem ekki sé hægt að senda peninga á milli og gjaldeyrir fáist ekki nema á svimandi háu verði. „Ef maður nefnir bankaábyrgð er bara spurt hvort maður hafi ekki tekið töflurnar í morgun. Það lifa ekki margir lengi í þessu umhverfi. Það er ekki möguleiki á að menn haldi þetta út. Ég er hér með 60 manns í vinnu sem eru bara að horfa á skjáinn og ekki er mikill afrakstur af því. En við getum ekkert annað gert en að mæta í vinnuna, svara símtölum að utan og brosa framan í heiminn,“ segir Ævar Þorsteinsson, forstjóri Kraftvéla.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .